Nammigrísinn ég

Þeir sem mig þekkja vita að ég get sýnt af mér ótrúlegann aga og staðfestu þegar kemur að freistingum. Ég get verið stöðugur eins og klettur þegar að fyrir framan mig liggja að því virðist óendanlegt magn af gúmmelaði, kruðeríi og öðru ætilegu sem inniheldur mikið af sykri, aspartamei, nutrasweet eða öðrum sætuefnum.

Hingað til hefur minn helsti veikleiki falist í hringlaka hvítri köku með bleiku glassúri, svokallaðri möndluköku. Kakan sú er fjórar sneiðar max og er tekin föstum tökum með ca. einum líter af ískaldri mjólk. Svo kaldri að það perlar á glasinu sem hellt er í. Ég kaupi slíka köku ekki oft, eðlilega enda væri mögulegur lífsaldur minn þá búinn að styttast um ca. þrjátíu ár því kakan sú er ekki holl. En hún er bara svo fjandi góð.

möndlukaka

Nú hafa sælgætis framleiðendur náð inn fyrir sterkbyggða virkisveggi mína. Þeir hafa reynt og reynt með allskonar galdrabrögðum en aldrei hafa tilraunir þeirra náð einhverjum vinsældum. Íslenskir sem og erlendir sælgætisframleiðendur hafa bara ekki náð að hitta á þá flóknu formúlu sem þarf til að ég leggist á beit þangað til að nóg er komið og ég ligg andvaka af verkjum í fósturstellingu.

Smá Lindu Buff var það fyrsta. Lindu Buff þekkja allir enda hafa súkkulaðistykkin ljúfu með hvíta jukkinu í grænu umbúðunum verið til sölu lengur en ég hef lifað. Það er eitthvað svo klassískt við þau en sökum aldurs hafa þau einhvern veginn ekki náð hylli þegar maður ætlar að verðlauna sig með einhverju smáræði. Þau hafa einhvern veginn alltaf verið til og eru því ekkert sérstaklega spennandi.

En núna hefur illur framleiðandinn ákveðið að búa til smáútgáfu og setja í kassa, svokallaða gjafaöskju og þar myndaðist lítið gat á varnarveggnum sem erfitt hefur verið að laga. Þessi smábiti inniheldur er svo mjúkur og góður og af þessari akkúrat stærð. Og eftir einn bita hugsar maður auðvitað sem svo að þetta sé svo lítið að maður verði að fá annan. Í þeirri hugsun felast mistökin og eftir nokkrar mínutur er kassinn tómur og maginn fullur.

Rothöggið kom svo í byrjun sumars í litlum 150 gramma poka. Pokinn lætur ekki mikið yfir sér enda innihaldið bara Djúpur, nammi sem mér finnst ekki gott.
En með því að hjúpa Djúpurnar með salmíaki eru komnar sterkar Djúpur og þau kvikindi hafa fellt varnarvegginn eins og stórskotalið búið nýjustu tólum og tækjum.

Þegar ég vakna hugsa ég um sterkar Djúpur og þegar ég fer að sofa hugsa ég um sterkar Djúpur. Það er hið fullkomna sælgæti. Ég vona innilega að þetta sé bara sumar sælgæti og verði horfið þegar september gengur í garð. Ef ekki verð ég að vinna fjarvinnu frá Heilsuhælinu í Hveragerði og láta setja mig á bannlista á bensínstöðvum sem selja þetta görótta nammi.

Smá Lindu Buff

Fimm dagar í heimkomu

Barnsmóðir mín og sambýliskona (bara svo það komi fram svo að fólk haldi að við séum ekki saman) hefur verið erlendis núna í nærri því tvær vikur og styttist í langþráða heimkomu.

Fyrir utan hið „mikla” álag sem myndast á mig föðurinn við að halda uppi aga og reglu fyrir nú þriggja ára dóttur okkar er margt sem þarf að huga að fyrir heimkomuna.

– Ég þarf að fara í Sorpu svo að ekki sjáist hversu marga bjóra ég hef drukkið í einveru minni.

– Ég þarf að henda öllum ummerkjum um óhollustu og láta pakkningar sem skarta orðum eins og lífrænt, fræ, Solla, Chia, D vítamín bætt og annað í þessum dúr sem er með allt of háu kíló og lítraverði vera í forgrunni.

– Ég þarf að taka mjög mikið og vel til þannig að heimilið sé hæft á forsíðu glanstímarits.

Þetta er brot af því sem þarf að gera svo að barnsmóðirin sé sátt enda við ekki með sama gæðastandard þegar kemur að þrifum og almennri umgengni. Það er ekki að ég sé sóði og vilji helst hafa heimilið eins og að ég byggi með Rympu á Ruslahaugunum heldur er þýska genið í barnsmóður minni einfaldlega svo sterkt að allt þarf að vera 110%, teinrétt og fullkomið.

Ég þarf því að koma barninu í pössun, klæða mig í gallann og skrúbba, bóna og pússa. Græna skýið sem verður yfir borginni næstu daga er ekki mengun frá Hellisheiðarvirkjun heldur bara grasekkill að undirbúa heimkomu barnsmóður sinnar og sambýliskonu.

Sjónvarp næstu viku

Það er margt í gangi í henni stóru Ameríku.

Það helsta sem hefur vakið gleði mína og annnara heimilimeðlima síðustu mánuði er margt og mikið. Á hverjum degi næstum því er til eitthvað nýtt að horfa á, af góðu efni sem engin ætti að láta framhjá sér fara.

Það allra besta er t.d. :

Breaking Bad

Pabbinn úr Malcolm in the middle leikur hér aðalhlutverkið, efnafræðikennara sem greinist með krabbamein og til að fjölskyldan hans þurfi ekki að eiga erfitt eftir andlát hans fer hann að búa til eiturlyf. Þannig tengist hann inn í heim sem hann hefur enga kunnáttu eða reynslu af og lendir í ýmsu. Ekki hjálpar að mágur hans starfar hjá fíkniefnalögreglunni.

Frábærir þættir, ekki grín heldur drama en samt svartur húmor sem lekur af þessum þáttum.

Sons of Anarchy

S.O.A fjalla um mótorhjólagengi sem stendur í ansi misjöfnum rekstri ásamt því að keyra mótórhjól. Frábærlega skrifaðir og leiknir þættir þannig að maður einhvern veginn hrífst með þessum heimi sem þetta fólk lifir og hrærist í. Nokkuð ofbeldisfullir og raunverulegir en alveg ótrúlega spennandi. Eitt það besta sem sjónvarp hefur upp á að bjóða í dag.

Girls

Kolsvartir bandarískir þættir um vinkonuhóp. Engin froða, ekkert glans. Bara alveg hrikalega skemmtilegt.

New Girl

Zoey Deschanel leikur aðalhlutverkið í þessum grínþáttum. Þeir eru misjafnlega fyndnir en það skiptir engu því Zoey Deschanel er að leika í þessum þáttum. Var ég búin að nefna að Zoey Deschanel er að leika í þeim ? Zoey Deschanel er ekki bara sæt heldur söngkonan í hinu frábæra dúett She & Him ásamt hinum frábæra M.Ward.

httpv://www.youtube.com/watch?v=tWDjDL2NAQM

Homeland

Uppáhalds þættirnir mínir ásamt S.O.A. Ótrúlega spennandi og góðir þættir sem fjalla um eltingarleik CIA við hryðjuverkamenn sem hafa á sínum snærum Bandaríska þegna sem hafa tengsl inn í Bandaríska herinn og stjórnmálin. Erfitt að lýsa þeim án þess að segja of mikið. Frábærir þættir, vel skrifaðir og vel leiknir. Sería eitt var frábær og númer tvö byrjar vel þó hún sé aðeins fyrirsjáanlegri.

 

Mumford og synir

Ég tek tekið Babel, nýjustu afurð drengjanna í Mumford & Sons í sátt. Það tók smá tíma en fyrst fannst mér platan hreinlega ekkert spes. Eins og oft er með góðar plötur þarf nokkrar endurteknar hlustanir til að snilldin nái í gegn og það gerðist núna loksins.

Platan er yndi, það er bara þannig. Rödd Marcusar Mumford er yndisleg, það hefur mér alltaf fundist en lagasmíðarnar á þessari nýju plötu voru ekki alveg að renna nógu vel í mig. Ég tek það þó til baka og hrósa plötunni í hástert.

Það er alltaf erfitt fyrir listamenn að fylgja eftir fyrstu plötu sem selst í bílförmum og kemur sveitinni á kortið. Mumford & Sons hafa spilað endalaust og einu sinni eftir að fyrsta platan þeirra kom út, þeir hafa spilað á öllum stóru tónlistarhátíðunum og komið fram í öllum sjónvarpsþáttum vestanhafs sem að skipta máli og þeir bara búnir að slá í gegn. Pressan að gera góða plötu númer tvö er því mikil og mjög oft sem að tónlistarmenn klikka í annað skiptið sem lagt er af stað í plötu.

En þetta gengur allt saman upp, sem er vel.

Svo er ég alveg hrikalegur sökker fyrir banjói.

httpv://www.youtube.com/watch?v=rGKfrgqWcv0

Prinsessan og ljónið

Ég var svo heppinn sem barn að eiga framsýna foreldra sem snemma aðlöguðust tölvutækninni og því var einkatölva (frábært orð) á heimilinu frá fæðingu minni.

Pabbi bjó til fyrstu leikjatölvu heimilins áður en ég fæddist en sú forláta vél gerði notendum hennar kleift að spila Pong og seinna var fjárfest í Sinclair Spectrum hjá Bókabúð Braga. PC tölva kom svo á heimilið þegar ég var að hefja skólagöngu og þetta því tæki sem ég átti auðvelt með að umgangast og nota sem nýtist mér enn þann dag í dag.

Margrét Dúna fæðist inn í heim sem er talsvert lengra komin í þessari upplýsingatæknibyltingu enda hún vön því að allt sjónvarpsefni sé tilbúið til neyslu strax, og að ekki þurfi að neyta efnis eingöngu eftir geðþótta dagskrárstjóra sjónvarpsstöðvanna. Hægt er að horfa og hlusta á þroskandi efni næstum samstundis þökk sé internetinu, þó allt í hófi og eftir uppeldisákvörðunum okkar foreldranna.

Það að horfa á tveggja og hálfs gamla stelpu halda á snjallsíma eða spjaldtölvu er merkilegt fyrirbæri. Hún kann og veit strax hvernig þetta virkar, það þarf ekki að kenna henni neitt á helstu aðgerðir heldur hefur hún lært þær með því að horfa á okkur foreldrana nota tækin og samhæfing augna og handa ásamt fínhreyfingum þurfa ekki að vera jafn þróaðar og þegar á að nota lyklaborð og mús saman.

Við Margrét Dúna höfum verið að dunda okkur að skoða saman allskonar leiki í iPad og á snjallsímanum mínum. Við litum, horfum á Sesam stræti og teljum saman og við lærum að þekkja stafina.

Það sem við höfum haft mest gaman af og ég mæli með að aðrir foreldrar og eigendur iPad nái sér í hið fyrsta eru eftirfarandi þrjú öpp :

  • Explorer Kids Underwater. Skemmtilegur púslleikur og tónlistin ærir ekki foreldrana sem er gott.

httpv://www.youtube.com/watch?v=vLbNwIZ9FUQ

  • Toca Boca Hair Salon. Margrét Dúna getur skemmt sér endalaust (Kristín reyndar líka) við að klippa, greiða, blása og lita hár á mönnum og dýrum.

httpv://www.youtube.com/watch?v=JCWFVnY7J_Y

  • Uppáhaldið okkar er þó klárlega Toontastic sem við búum til teiknimyndir saman í. Þrekvirkið Prinsessan og Ljónið er einmitt búið til í þessu appi.

[pageview url=”http://toontube.launchpadtoys.com/embed/108023″]