Eftir að Mr. Skallagrímsson hafði unnið frækin sigur á Grímunni var ekki annað hægt en að gera sér ferð upp í Borgarnes og sjá Benedikt Erlingsson í verkinu sem svona mikið lof hefur fengið.
Villi fær plúsinn í kladdann í þetta skiptið fyrir að eiga veg og vanda að þessari ferð okkar drengja, hann skipulagði, græjaði og gerði.
Leikritið sjálft er í raun eitt það fyndnasta sem ég hef séð lengi í leikhúsi. Benedikt er frábær sögumaður sem veður úr einu í annað og maður fylgist dolfallinn með öllu saman. Hann lætur þáttakendur taka beinan þátt í leikritinu og það er pottþétt að engin sýning er eins. Ég myndi í raun og veru alveg vera til í að fara aftur.
Ég set leikritið Mr. Skallagrímsson í sama flokk og Shakespeare eins og hann leggur sig sem einmitt var leikstýrt af Benedikt. Það var og er það fyndnasta leikrit sem ég hef á ævi minni séð.
Ég mæli líka með að sem flestir geri svona dag úr þessu eins og við félagarnir gerðu. Það er gaman að lifa aðeins lífinu og manni munar ekkert um að leggja aðeins fyrr af stað úr höfuðstaðnum og ná kvöldverði í Borgarnesi á Landnámssetrinu.