Það situr í mér eftir helgina hversu magnaðir tónleikar Hins Íslenzka Þursaflokks voru í Laugardagshöllinni á laugardaginn.
Tilefnið var 30 ára afmæli sveitarinnar og var öllu tjaldað til. Lög Þursanna sem fyrir löngu hafa stimplað sig í heildingul þjóðarinnar voru útsett með Caput hópinn í huga ásamt Þursunum sjálfum. Sveitin sem kom fram á tíma diskós og pönks ætti að vera spiluð í menntaskólum þessa lands til að kenna fólki að meta íslensk þjóðlög og íslenska tónlist. Hér er eitthvað fyrir alla.
Egill Ólafsson er mikill listamaður og er röddin hans betri í dag ef eitthvað er miðað við upprunalegar upptökur sveitarinnar. Hvað eftir annað kom mér á óvart hversu sterkur Egill er á sviðinu, svo sannarlega á heimavelli á sviðinu.
Eina sem stuðaðið mig við tónleikana er að ekkert blast var á þeim, mixið allt mjög miðjukennt og mónótónískt en það er víst sá galli sem fylgir því að hafa sviðið troðfullt af klassískum hljóðfærum.
Þegar ég sá dagskránna í byrjun tónleikanna sagði ég að það kæmi ekki annað til greina en að Jón var kræfur karl og hraustur yrði lokalagið, þó það væri ekki á dagskránni. Það er ekkert lag til þess hæfara til að klára tónleikana með þessari hljómsveit en það lag.
Enda fór það svo að Tómas Tómasson steig fremstur á svið, kynnti lagið og taldi í. Frábær lok á frábærum tónleikum.
Fróðleiksmoli dagsins er svo sá að fyrstu opinberu tónleikar Hins Íslenzka Þursaflokks fóru fram í mekka menningarinnar, Breiðholti.
Hinn Íslenzki Þursaflokkur – Skriftagangur
Hinn Íslenzki Þursaflokkur – Jón var kræfur karl og hraustur (á tónleikum)