Þann 2. maí 2003 var ég staddur í Kaupmannahöfn með Guffa, Villa og Helga Páli í pílagrímsferð. Við höguðum okkar eins og kóngar þrátt fyrir að ekkert væri góðærið og drukkum bjór og kampavín langt fram á nætur.
Tilgangur ferðarinnar fyrir utan almennt skemmtanahald var aðeins einn. Að sjá Sir Paul á tónleikum.
Það er eitthvað sem að allir ungir menn verða að gera sem hluti af manndómsraun þeirri sem gerir suma okkar að karlmönnum. Að sjá Bítil á tónleikum er einn af þessum hlutum.
Tónleikarnir voru á Parken, við vorum nokkra metra frá sviðinu og tíminn stóð í stað þessa tvo og hálfan tíma sem Sir Paul var fyrir framan okkur.
Þegar Let It Be var í fullum gangi, um það bil hálfnað koma smáskilaboð frá Óla bróður. Fædd var Lísa Ólafsdóttir, fyrsta barnið í fjölskyldunni á eftir sjálfum mér og því áfanginn stór og mikill.
8 árum seinna er Lísa klár og lífsglöð stelpa fyrir utan að halda með Víking. Dagurinn er hennar, skuldlaust.
Afmælisbarnið á sérstakann stað í hjarta mínu, fyrir utan það að vera dóttir bróður míns var fyrsta orðið hennar nafnið mitt. Hún var að heiman á afmælisdaginn en bauð ömmum og öfum á Hamborgarafabrikkuna. Afmælisbörn fá óskalag á staðnum og Lísa valdi Sexy Beast með Togga. Lagið er um mig og svo syng ég sjálfur í því.
Vel upp alin hún Lísa.
httpv://www.youtube.com/watch?v=S8jrd5UYNFs