Mumford og synir

Ég tek tekið Babel, nýjustu afurð drengjanna í Mumford & Sons í sátt. Það tók smá tíma en fyrst fannst mér platan hreinlega ekkert spes. Eins og oft er með góðar plötur þarf nokkrar endurteknar hlustanir til að snilldin nái í gegn og það gerðist núna loksins.

Platan er yndi, það er bara þannig. Rödd Marcusar Mumford er yndisleg, það hefur mér alltaf fundist en lagasmíðarnar á þessari nýju plötu voru ekki alveg að renna nógu vel í mig. Ég tek það þó til baka og hrósa plötunni í hástert.

Það er alltaf erfitt fyrir listamenn að fylgja eftir fyrstu plötu sem selst í bílförmum og kemur sveitinni á kortið. Mumford & Sons hafa spilað endalaust og einu sinni eftir að fyrsta platan þeirra kom út, þeir hafa spilað á öllum stóru tónlistarhátíðunum og komið fram í öllum sjónvarpsþáttum vestanhafs sem að skipta máli og þeir bara búnir að slá í gegn. Pressan að gera góða plötu númer tvö er því mikil og mjög oft sem að tónlistarmenn klikka í annað skiptið sem lagt er af stað í plötu.

En þetta gengur allt saman upp, sem er vel.

Svo er ég alveg hrikalegur sökker fyrir banjói.

httpv://www.youtube.com/watch?v=rGKfrgqWcv0

Prinsessan og ljónið

Ég var svo heppinn sem barn að eiga framsýna foreldra sem snemma aðlöguðust tölvutækninni og því var einkatölva (frábært orð) á heimilinu frá fæðingu minni.

Pabbi bjó til fyrstu leikjatölvu heimilins áður en ég fæddist en sú forláta vél gerði notendum hennar kleift að spila Pong og seinna var fjárfest í Sinclair Spectrum hjá Bókabúð Braga. PC tölva kom svo á heimilið þegar ég var að hefja skólagöngu og þetta því tæki sem ég átti auðvelt með að umgangast og nota sem nýtist mér enn þann dag í dag.

Margrét Dúna fæðist inn í heim sem er talsvert lengra komin í þessari upplýsingatæknibyltingu enda hún vön því að allt sjónvarpsefni sé tilbúið til neyslu strax, og að ekki þurfi að neyta efnis eingöngu eftir geðþótta dagskrárstjóra sjónvarpsstöðvanna. Hægt er að horfa og hlusta á þroskandi efni næstum samstundis þökk sé internetinu, þó allt í hófi og eftir uppeldisákvörðunum okkar foreldranna.

Það að horfa á tveggja og hálfs gamla stelpu halda á snjallsíma eða spjaldtölvu er merkilegt fyrirbæri. Hún kann og veit strax hvernig þetta virkar, það þarf ekki að kenna henni neitt á helstu aðgerðir heldur hefur hún lært þær með því að horfa á okkur foreldrana nota tækin og samhæfing augna og handa ásamt fínhreyfingum þurfa ekki að vera jafn þróaðar og þegar á að nota lyklaborð og mús saman.

Við Margrét Dúna höfum verið að dunda okkur að skoða saman allskonar leiki í iPad og á snjallsímanum mínum. Við litum, horfum á Sesam stræti og teljum saman og við lærum að þekkja stafina.

Það sem við höfum haft mest gaman af og ég mæli með að aðrir foreldrar og eigendur iPad nái sér í hið fyrsta eru eftirfarandi þrjú öpp :

  • Explorer Kids Underwater. Skemmtilegur púslleikur og tónlistin ærir ekki foreldrana sem er gott.

httpv://www.youtube.com/watch?v=vLbNwIZ9FUQ

  • Toca Boca Hair Salon. Margrét Dúna getur skemmt sér endalaust (Kristín reyndar líka) við að klippa, greiða, blása og lita hár á mönnum og dýrum.

httpv://www.youtube.com/watch?v=JCWFVnY7J_Y

  • Uppáhaldið okkar er þó klárlega Toontastic sem við búum til teiknimyndir saman í. Þrekvirkið Prinsessan og Ljónið er einmitt búið til í þessu appi.

[pageview url=“http://toontube.launchpadtoys.com/embed/108023″%5D

Ég er hér enn

Þessi síða hefur verið vanrækt, hrikalega oft hef ég verið byrjaður að skrifa eitthvað hingað inn en gefist upp eða fundist það ekki eiga heima hér inni. Samfélagsmiðla byltingin hefur farið illa með gummijoh.net sem fór í loftið í júní árið 2000.

Facebook, Twitter, Google+ og aðrir samfélagsmiðlar hafa étið allan minn fókus og það er eitthvað sem gerðist bara óvart. En núna er átak, upprisan er hafin og vonandi heldur maður þetta út.

En á meðan ég hnoða í fleiri færslur skulum við hlusta og njóta hljómsveitarinnar 1860. Hún er yndi.

httpv://www.youtube.com/watch?v=TfgmheZ2Hw8

Múgsefjun

Einhver vanmetnasta en jafnframt ein besta hljómsveit landsins um þessar mundir og síðustu ár er hljómsveitin Múgsefjun.

Það að þessi hljómsveit sé ekki sé ekki á vörum flestra landsmanna er hneyksli, það að Kalli Bjarni og Ingó ásamt fleiri Idol krökkum séu þekktari lætur okkur líta illa út sem menningarþjóð og unnendur góðrar tónlistar. Eða kannski segir allt sem segja þarf um hnignum og almenna stöðu okkar, eitthvað sem mér þykir sorglegt.

Fyrsta plata sveitarinnar, Skiptar skoðanir kom út 2008 og nokkur lög þar fengu nokkuð góða spilun á RÁS2, frábæra dóma allsstaðar þar sem íslensk tónlist er tekin fyrir en svo ekki söguna meir.

Núna, fjórum áður síðar er önnur plata sveitarinnar að koma út og ber hún nafn sveitarinnar. Múgsefjun syngur á íslensku og eru textar sveitarinnar skemmtilegir en flóknir og oft tvíræðir. Söngurinn er yndi og útsetningar allar bæði flóknar en í senn svo einfaldar. Spilverk Þjóðanna er sveit sem oft kemur upp í hugann þegar ég hlusta á Múgsefjun.

Það er skylda ykkar að hlusta á nýjustu plötu sveitarinnar. Þessir drengir eiga skilið að finna og skynja að eftir þeim sé tekið. Þeir hafa lagt allt sitt í þetta og núna er komið að okkur.

Það er eitthvað dáið innra með ykkur ef þið fílið ekki þetta.

httpv://www.youtube.com/watch?v=WD87tRLsGjw

 

 

2 ára

Fyrir tveimur árum síðan akkúrat í dag fékk ég dóttur mína í hendurnar í fyrsta skipti. Það er hægt að lesa um það í bókum og sjá það mögulega í sjónvarpinu að þetta sé eitthvað magnað og frábært en það er engan veginn hægt að lýsa þeim tilfinningum sem að um mann líða á þeirri stundu sem maður fær að halda á barninu sínu í fyrsta skipti.

Það að finna endalausa og óskilyrðislausa ást á einu augnabliki til annarar manneskju er eitthvað sem ég vona að allir fái að upplifa, það að verða illt í hjartanu af umhyggju og stolti yfir einföldum hlut eins og að hún hafi sett mat á gaffal og stungið upp í sig alveg sjálf og að gráta af gleði yfir brosi er ólýsanlegt. Sterkasta minningin frá fyrstu mánuðum Margrétar Dúnu er samt sú endalausa gleði sem það gaf manni að geta alltaf svæft hana á öxlinni, þar leið henni vel og vildi vera og þar vildi ég hafa hana.

Svefnlausar nætur og minni svefn almennt er staðreynd en það er lítil fórn á meðan maður fær að njóta þeirra forréttinda að fylgjast með barninu sínu þroskast og vaxa, breytast úr ósjálfbjarga hvítvoðungi yfir í 2 ára stelpu sem veit upp á hár hvað hún vill, getur leikið sér að tilfinningum manns til þess eins að fá rúsínupakka eða snuð. Þó að klukkan sé 7:00 á sunnudagsmorgni þýðir lítið að blóta yfir því að dagurinn hjá manni sé byrjaður. Maður fer sjálfkrafa fram úr með bros á vör þegar að maður heyrir kallað „pabbi, pabbi. Búið“ á meðan strokið er nokkuð harkalega í augað á manni.

Þessi tvö ár hafa verið ótrúlega fljót að líða og það sem stendur upp úr og er það allra ómetanlegasta við allann þennan tíma er að hafa getað farið í fjögurra mánaða orlof og eytt þeim tíma alfarið með dóttur sinni. Hluta af tímanum var ég einn með hana á meðan að barnsmóðirin og sambýliskonan var erlendis og sá tími gaf mér sem pabbanum langmest.

Mamman er ósjálfrátt í fyrsta sæti enda hún búin að ferja heila manneskju í maganum á sér og gefur henni brjóst. Þeirri tengingu milli móður og barns getur pabbinn ekki skákað og verður því að sætta sig að vera í öðru sæti eða því sem næst á meðan að nýburinn nærist alfarið með hjálp móður sinnar.

Það að sjá svo alfarið um Margréti Dúnu gerði það að verkum að ég var orðin jafningi mömmunnar ef það er þá hægt sem gerir það að verkjum að hún leitar til jafns til okkar ef eitthvað bjátar á, það er ómetanlegt.

Til hamingju með daginn Margrét Dúna.

last.fm

Síðan 7.september það herrans ár 2004 hef ég notað last.fm til að fylgjast með því sem ég hlusta á. Allar tölvur sem ég hef notað síðan þá bæði heima og í vinnu, símar og iPoddar hafa samkeyrt allar upplýsingar um hlustanir þangað inn þannig að allskonar skemmtilegar upplýsingar eru þar til á skrá sem gaman er að skoða.

Bæði er gaman að skoða hlustunarmynstrið á ákveðnum tímapunktum í lífi mínu ásamt því að þetta er gott til að rifja upp lög og hljómsveitir sem ég hafði annars gleymt.

Síðan kerfið byrjaði að vakta hlustanir mínar hefur það skrá hjá sér 88,214 hlustanir.

Belle & Sebastian, mín allra allra uppáhaldssveit trónir í fyrsta sætinu yfir þær hljómsveitir sem ég hef mest hlustað á. Ekkert óvænt þar. Það lag með Belle & Sebastian sem ég hef hlustað á oftast er Wrapped up in books af hinni frábæru plötu Dear Catastrophe Waitress.

httpv://www.youtube.com/watch?v=iBU-MxydbWQ&ob=av3e

Topp 5 listinn yfir þær sveitir sem ég hef mest hlustað á lítur svona út, ef ýtt er á nafn hljómsveitar opnast það lag sem ég hef hlustað á mest með viðkomandi sveit.

1. Belle & Sebastian

2. Sigur Rós

3. Arcade Fire

4. The Magnetic Fields

5. The Polyphonic Spree

Þegar Guðrún eyðilagði jólin

Ég er búin að byrja á þessari færslu núna nokkrum sinnum. Finnst svo erfitt að skrifa þessi orð, skrifa þessi orð um konuna sem gerði mig að manni og hefur kennt mér svo margt.

En stundum er lífsnauðsynlegt að færa sig aðeins frá miðjunni og horfa á hlutina í samhengi og af fullu og einlægu hlutleysi. Það skiptir engu máli frá hvaða hlið ég horfi á þetta leiðinlega mál, það verður alltaf ljótt og sannleikurinn alltaf sá hinn sami. Og þessi sannleikur þarf að komast fram í dagsljósið enda bitnar þetta á börnum og það viljum við ekki.

Móðir mín, hún Guðrún er búin að eyðileggja jólin.

 

Það var með ekkasogum sem ég þurfti að segja Guffa vini mínum að ekkert yrði ritað um jólakökusmakkið þetta árið.

Móðir mín sem síðustu 35 ár eða svo hefur verið 15 sorta húsmóðir hver jól hefur ákveðið að skera niður. Það að skera niður að einhverju leiti hefði ég getað skilið enda eðlilegt að taka út sortir sem ekki eru að standa sína pligt en þá er lágmark að kynna nýja sort til sögunnar sem kemur inn ein jól til reynslu svona áður en ákveðið er að skera niður endanlega um heila sort.

Fimm sortir eru það þessi jólin, fimm (5) sortir er það sem móðir mín hefur lagt til jólahalds þetta árið. En í raun eru þetta bara þrjár (3) sortir því að móðir mín er að reyna að klóra í bakkann og fegra baksturs bókhaldið og telur því bæði skinkuhorn og brauðbollur upp í sinni talningu yfir heildarfjölda sorta.

Við vitum flest að skinkuhorn eru ekki smákökur heldur falla í flokk með heitum brauðréttum og öðrum brauðmeti. Skinkuhorn eru vissulega ljúfeng en þau eru hvorki smákökur né jólaleg.

Ég hef reynt að tjónka við henni, biðlað til hennar og hreinlega grátið en ekkert hefur fengið hana til þess að bakka. Guðrún, móðir mín ætlar að halda jólin svona. Þetta eru auðvitað engin jól ef að þetta á að vera svona. Þetta er bara eðlilegur heimilisbakstur eins og verið sé að baka fyrir lítið fjölskylduboð án tilefnis.

Það sem særir mig þó hvað mest við þetta allt saman er að skjaldborgin sem að lofað var sést hvergi. Átti ekki að standa vörð um heimilin ? Átti ekki að vernda börnin og fjölskyldurnar ?

Hér stend ég ásamt bræðrum mínum og öldruðum heyrnarskertum föður og berst við almættið móður mína sem öllu hefur stjórnað frá því að við bjuggum öll undir sama þaki og enn reynir hún að stjórna því hvernig við höldum jól. Barnaverndarnefnd segist ekki geta gert neitt þar sem við séum ekki lengur börn. Samt erum við bræður enn börn móður okkar og munum alltaf vera, þannig að sú rök standast ekki.

Lausnin er ekki að ég baki sjálfur eða eitthvað álíka. Öll mannsbörn vita að kökur sem bakaðar eru af móður smakkast betur en aðrar kökur, svona svipað og að keyptar piparkökur eru betri en stolnar piparkökur.

Að skrifa um þetta á netið, bera sig illa og telja illilega brotið á rétti sínum er því eina vitið því það virðist virka mjög vel á Íslandi í dag.