Orrustan í eldhúsinu

Fjölmargar orrustur hafa verið háðar í eldhúsinu þessi síðustu misseri.

Wok pannan er fyrir löngu sigruð og get ég jafnað og stundum toppað hvaða taílensku matstofu sem er, það hefur sannast fyrir lifandi löngu að þegar kemur að austurlenskri matargerð að einfaldleikinn er oftast bestur. Pad Thai hvort sem er með rækjum eða kjúklingi og Myntu-lambið myndi ég taka til þeirra rétta sem mér fyndist ég gera best.

Grillaðar pizzur er svo hitt vígið sem er fallið, eftir snarpa baráttu milli mín, tveggja brennara grills og pizzadeigs með sjálfstæðann vilja varð loks skrifað undir sáttayfirlýsingu þar sem mér var gefinn fullnaðarsigur. Grillið hlýðir nú minni hverri skipun og hækkar og lækkar um nokkrar kommur sýnist mér svo og pizzadeigið var ekkert nema sýndarmennskan og gaf eftir um leið og maður sýndi því hver ræður.

Grillaðar pizzur nálgast það best sem ég kalla fullkomnun. Þetta góða eldbökunarbragð kemur á pizzuna og maður hefur næstum allt litrófið fyrir framan sig þegar kemur að því að skella áleggi á lummurnar.

Rakst á daginn á bók sem innihélt ekkert nema ráðleggingar og hugmyndir er snúa að grilluðum pizzum og þar var ein lumman sem hljómaði of vel til að sleppa. Grilluð pizza með laxi.

Það er ljóst að slík pizza verður spísuð* reglulega hér eftir, unaður með öllu tilheyrandi.

Það er reyndar erfitt að sjá hvernig grilluð pizza með laxi, rjómaosti, rauðlauki og dilli geti mögulega klikkað. Ég sé það hreinlega ekki fyrir mér.

pizzalax

*) Tilraunir mínar að koma dönskum slettum í íslenskt mál halda áfram.

Wok pannann og ég

Ég er ástfanginn af wok pönnunni minni. Ég hef verið að prófa eitt og annað síðustu mánuðina og alltaf kemur mér á óvart hvað er hægt að gera marga og einfalda rétti á wok pönnunni sem allir bragðast og líta út eins og það besta sem hægt er að fá á asískum stöðum hér í borg.

Um daginn var svo allt wok-ið hingað til toppað og það á ótrúlega skömmum tíma. Fyrir áhugasama wok eigendur læt ég uppskriftina fylgja með. Fékk hana úr bók sem ég gluggaði aðeins í þegar ég fór í bókabúð. Vildi ekki kaupa bókina en fannst uppskriftin góð þannig að ég tók mynd af henni með símanum mínum.

Hefði verið þægilegra ef bókabúðin væri með ljósritunarvél til afnota en maður verður að bjarga sér á þessum síðustu og verstu.

1 matskeið olía
750 gr lamba fillet, þunnt skorið. Prófaði líka nautakjöt seinna og það var næstum jafn gott.
4 hvítlauksgeirar, skornir smátt
2 rauð chili (ekki of stór), skorin smátt
Hálfur bolli ostrusósa
2 og hálf matskeið fiskisósa
1 og hálf borðskeið sykur (Venjan er að  nota hrásykur en það má vera hvítur)

Þetta er mmmm svo gott.

Næst verður það Pad Thai sem verður sigrað, ó já. Það verður sigrað.

sælkerahornið

Af mörgum matreiðslu og uppskriftarsíðum sem maður hefur bookmarkað í gegnum tíðina er aðeins ein með 100% vinningshlutfall. Allar uppskriftirnar hafa verið prófaðar á L82 af þessari síðu og allar hafa þær slegið í gegn.

Þá er ég ekki að tala um nakta kokkinn Jamie Oliver sem ég hef reyndar aldrei séð nakinn eða lundabanann Gordon Ramsey. Heldur er ég að tala um Hagnaðinn.

Hver er Hagnaðurinn spyr þá pöpullinn ? Hvaða Hagnaður er það sem að fær drengina á L82 til að stökkva upp til handa og fóta og setja á sig svuntu un leið og Hagnaðurinn birtir nýja uppskrift?

Hagnaðurinn veit bara hvað það er sem fær karlmenn til að elda og taka hraustlega til matar síns. Hagnaðurinn hefur reyndar bara sett tvær uppskriftir á netið og báðar hafa þær slegið í gegn, það er ekki eins og við séum að tala um einhvern bálk bóka.

Fyrst var það pizzan sem fær alla drengi til að gefa hvorum öðrum high five og öskra enda barbeque sósa í miklu magni á pizzunni ásamt forboðnu plöntunni kóríander. Menn borða barbeque og skiptast á sögum um Jack Bauer, bara eitthvað sem við gerum.

Uppskrift númer tvö var svo nýlega tekin fyrir, kanilsnúðar. Ekki einhverjir asnalegir dúllu kanilsnúðar eins og Jói Fel myndi gera heldur alvöru kanilsnúðar sem eru eins og boltar að stærð. Kanilsnúðar eiga að vera þrír bitar í það minnsta, svipað og með Sörur. Ekkert hálfkák hér.

Því skellti drengurinn í fjórfalda uppskrift og í heiminn komu 40 kanilsnúðar.

Íbúar L82 bíða spenntir eftir næstu uppskrift frá Hagnaðinum.

Vínkrítik

Vín og Matur er vín innflytjandi hér í bæ sem að stendur fyrir sniðugu viral marketing. Í stað þess að t.d. kaupa pláss í Gestgjafanum eða einhverju slíku er treyst á almúgann til að breiða út fagnaðarerindið. Þetta er gert með því að láta ákveðnum bloggurum í té flösku sem þeir svo eiga að skrifa um. Mæli með að þið skoðið síðuna þeirra, hún er stútfull af góðum upplýsingum og fróðleik. Þegar þið farið í vínbúð og sjáið flösku merkta Vín og Matur myndi ég skoða hana betur, hún er eflaust góð.

Ég var svo heppinn að Lovísa skoraði á mig og ég fékk flösku af rauðvíni fyrir viku síðan til að skrifa um.

Í gærkvöldi var ákveðið að opna flöskuna og athuga hvað þar væri á ferðinni. Vínið sem um ræðir er The Footbolt árgerð 2003 , ástralskt vín frá framleiðandanum d´Arenberg.

Víninu leyfði ég að standa í smá stund á meðan lambakjötið var grillað. Þetta er shiraz vín en þau henta alltaf vel með grillmat finnst mér.

Vínið var ekki eins þungt og ég átti von á miðað við lykt, mikill ávaxtakeimur frekar sætur og bragðið passaði vel með grillmatnum. Mikið berjabragð og allt að því súkkulaði keimur sem er ekki slæmt. Vínið myndi henta einstaklega vel með bragðsterkum ostum hugsa ég þó ég hafi ekki prufað það.

Þeir sem borðuðu með mér og fengu rauðvín voru öll sammála um að þetta væri gott vín sem að yrði eflaust keypt aftur.

Ég mæli því hiklaust með The Footbolt og þá sérstaklega með grillmat. Ekki slæmt þar sem sú tíð er komin og öll grill landins eru að fara í gang. Ég skora á sælkerann Don Pedro í vínkeðjunni.

Uppfært kl 14:05

Togga fannst hinn dómurinn tilgerðarlegur þannig að ég set smá umsögn á mannamáli líka. Það eru auðvitað ekki allir af menningarheimilum og öll erum við ekki heimsborgarar.

The Footbolt er gott rauðvín. Svo gott að ég gæti þambað það þangað til að ég myndi líða útaf. Það er gott með snakki og pulsum og jafnvel hamborgurum. Það er svo gott að ég væri til í að fá það beint í æð.

Tilraunareldhúsið

Í gærkvöldi við luktar dyr á L82 var ótrúleg tilraun framkvæmd. Reynt var að slá saman einhverjum bestu réttum heimsins í einn.

Um var að ræða:

Rjómaís
Royal búðing, karamellu og súkkulaði blandað saman.

Tilraunin var í tveimur fösum. Að blanda rjómaís við óharnaðann Royal búðing og svo að blanda rjómaís við Royal búðing sem hafði verið í ísskáp skv. leiðbeiningum á pakka sem fyrir löngu eru innstimplaðar í hug okkar.

Dóri á allan heiðurinn af þessari tilraun en ég var með til skrafs og ráðagerða.

Eftir þennan fyrsta fasa komumst við að því að rjómaís með óhörðnuðum búðing er ekki eins góður og rjómaís með tilbúnum búðing.

Í næsta fasa verður prufað að blanda rjómaís eingöngu við karamellubúðing. Ég hef rökstuddan grun um að það verði betra, súkkulaðibúningurinn er svo ráðandi.

Hér eru myndir af herlegheitunum og sveittum Arnari að spila hafnarbolta.

Enn og aftur af L82

Á L82 gildir engin föst regla um kvöldmatinn. Sumir (Hlynur og Arnar) eru mikið í því að ná sér í pizzu en ég er meira í því að elda. Í fyrsta lagi finnst mér gaman að elda og svo er ég bara svo góður í því líka, eða svo finnst mér.

Gærkvöldið var í raun skólabókardæmi um kvöldmat á L82. Hlynur fékk sér brauð með skinku og Arnar fékk sér tvær skálar af Cocoa Puffs svona áður en hann sofnaði í sófanum.

Meðlimur Jóh klansins sem kemur auðvitað af menningarheimili eldaði í matinn. Í matinn var frönsk lauksúpa.

Þetta sýnir í hnotskurn hvernig málum er háttað á L82. Eina sem mér finnst í raun vanta væri fast kvöld þar sem við eldum saman og skiptumst á að elda. Þegar „við“ eldum að þá er það ég sem elda handa okkur og stundum kemur kannski Arnar með poka af matvörum og biður mig að elda veislu úr pokanum. Eins erfitt og það er nú að gera veislu úr skinkubréfi, bernaissósu og pikknikk að þá er það nú samt hægt.