Og það var stúlka

Þann 24.apríl fæddist okkur Kristínu lítil stúlka, Stúlka Guðmundsdóttir öllu heldur. Hún kom eiginlega upp úr þurru þar sem Kristín var gengin 38 vikur þegar hríðirnar fóru af stað og allir voru búnir að undirbúa okkur fyrir 40 til 42 vikur sem væri barasta eðlilegt fyrir fyrsta barn.

Veran uppi á fæðingardeild, alls 24 og hálfur klukkutími frá því að við mættum á svæðið og þangað til að Stúlka Guðmundsdóttir mætti á svæðið voru ótrúlegir. Auðvitað erfiðir en samt leið þetta allt svo furðu hratt og ber sérstaklega að þakka ótrúlegu starfsfólki á fæðingardeild og í Hreiðrinu fyrir það. Ekki bara að þetta fólk veit upp á hár hvað það er að gera heldur er öll hegðun þeirra og fas af þeim toga að manni finnst hálfpartinn að maður sé heima hjá sér og þau að koma í heimsókn en ekki að maður sé á þeirra svæði.

Ég átti alltaf það lúxus vandamál að eiga inni mikið sumarfrí þannig að núna er ég í tveggja mánaðar sumarfríi til að vera með Kristínu og Stúlku Guðmundsdóttur. Það er nokkuð magnað verð ég að segja. Í fyrsta lagi er ótrúlegt hvað maður getur bara setið, staðið og legið og starað á litlu stelpuna sína og fylgst með öllum þessum hreyfingum, svipum í andliti og hljóðum sem hún gefur frá sér og í öðru lagi er ótrúlega gott að geta hjálpað Kristínu, aðstoðað hana eftir þessa raun sem að fæðingin er og gert litlu fjölskyldunni það auðveldara að koma sér í rútínu.

Stúlka Guðmundsdóttir sefur að öllu jöfnu um 20 tíma á sólarhring, stundum meira og örsjaldan minna. Hún hefur tekið klassískar andvöku nætur þar sem foreldrarnir hafa verið að deyja úr þreytu og illa skilið hvað er að angra hana. Hún skilur hvorki Íslensku, Dönsku, Ensku né Spænsku og því reynir maður allt sem hægt er til að svæfa stelpuna. Oftast virkar bara hið klassíska „labba um íbúðina með barn á öxl“ trikk en það er tímafrekt en þó mjög gefandi en svo um leið og maður leggur hana frá sér býður hún góðan dag.

Í þessu leyfi mínu hef ég svo ekki horft jafn mikið á NBA úrslit á ævi minni, ég held að ég hafi varla misst af leik. Því ber að sjálfsögðu að fagna.

Trippin & trappin

Fyrir 30 árum síðan varð ég til. Þá fjárfestu foreldrar mínir í forláta Tripp Trapp stól fyrir dúllann sinn sem síðan hefur verið notaður á Jóh setrinu fyrir barnabörn og önnur börn.

Nú þegar að erfinginn er á leiðinni tókum við stólinn og pússuðum hann upp og sprautuðum. Hann er eins og nýr og ekki að sjá að sjá að hann sé að verða þrítugur eins og upprunalegi eigandinn. Flottur stóll klárlega en enn flottari þegar það er saga á bakvið hann.

Hér má sjá krúttsprengjuna sjálfa í stólnum.

Hér má svo sjá stólinn eftir yfirhalninguna.

Pabba blogg

Þar sem von er á endurbættri útgáfu af sjálfum mér hef ég nútímamaðurinn verið eftir bestu getu að taka þátt í því langa en stórskemmtilega ferli sem að meðgangan er. Karlmaðurinn í sambandinu getur gert eitt og annað til að taka þátt í þessu ferli þó að móðirinn taki klárlega mesta þungan í þessu öllu saman. Ég hef verið að fínkemba netið og lesa mér til hvað er að gerast í móðurkviði milli vikna og hver áhrifin eru á móðurina, gott að hafa þetta allt á hreinu svona ef eitthvað panikk ástand myndast þar sem óreynd móðirin er að fá nett kast yfir einhverju sem ekkert er.

Meðgangan mín hefur gengð eins og í sögu, ekkert vesen og ekkert sem þarf að fylgjast sérstaklega með. Lúxus vandamálið sem ég er að lenda í er að tíminn líður kannski helst til of hægt. Ég er tilbúin að takast á við þetta enda þýðir það að ég sé orðin pabbi þegar Heimsmeistarakeppnin í knattspyrnu fer að byrja.

Brjóstagjafarnámskeið er eitthvað sem nauðsynlegt er að fara á fyrir allar tilvonandi mæður og ágætt fyrir feður að fara með á. Fræðandi mjög að vita sem mest um Montgomery kirtlana og ekki verra að vita hvað maður skal gera ef að einhverjar stíflur skyldum myndast í hinum fjölmörgu leiðurum sem að liggja þarna út um allt. Allt þetta flókna apparat sem hefur aðeins þann eina tilgang að fæða barnið með þeim bestu næringarefnum sem völ er á. Líkaminn er ótrúlegt fyrirbæri, að minnsta kosti hjá konum. Það er einhvern veginn einblýnt á það hvað konan er merkilegt fyrirbæri en ekkert talað um að við karlmennirnir þurftum nú að koma að þessu, annars værum við ekki stödd þarna. Ánægjulegar 20 mínutur einhvern tímann í haust 2009 urðu til þess að ég er allt í einu staddur á þessu námskeiði og það má ekki tala niður.

Námskeið hannað sérstaklega fyrir verðandi feður er svo aftur á móti eitthvað sem verður að teljast sem vonbrigði ársins. Ég eins og svampur þarna mættur til að drekka í mig fróðleik um þær áskoranir sem að maður mætir í föðurhlutverkinu en fékk aumingjahroll upp eftir öllu bakinu um leið og sá sem hélt námskeiðið sagði orðin „Við erum bara hér strákarnir að spjalla saman“. Svo náði hann að gera orð eins og fjölskylda og uppeldi að leiðinlegum orðum sem maður átti hreinlega ekki að hlakka til eða njóta á nokkurn máta.

Toppnum varð svo náð fyrir viku síðan þegar ég skundaði á þriggja tíma glens sem kallast parakvöld í meðgönguyoga. Þrír tímar sem á blaði hljómuðu eins og eilífð en voru furðu fljótir að líða. Ekkert að því að læra á punkta á líkamanum sem gott að er nudda þegar fæðingin stendur yfir til að lina þjáningar og enn betra að læra öndunar aðferðir sem hjálpa manni að komast í gegnum erfiðasta hjallann á fæðingardeildinni.

En síðustu tvær mínuturnar urðu raunverulega eins og þrír tímar að líða þegar að yogakonan bað alla herrana í herberginu að para sig saman einn á einn. Menn sem aldrei höfðu hitt hvorn annan og áttu allt í einu að para sig saman, koma sér vel fyrir á dýnunni með teppi og kodda og svara tveimur spurningum til hvors annars.

Hvað hefur komið þér mest á óvart á meðgöngunni ? Og hvað hefur þér fundist ánægjulegast á meðgöngunni ? Þessu átti ég að svara fyrir framan bláókunnugann mann sem átti að horfa í augun á mér á meðan og hlusta.

Þarna fór ég langt út fyrir þægindakassann minn og átti moment sem ég mun aldrei eiga aftur með nokkrum manni.

Það fyrsta sem ég gerði þegar ég kom heim var að adda þessum nýja vini mínum sem vin á Facebook. Við áttum stund sem að engin getur tekið frá okkur.

High five fyrir 2009

Árið 2009 var hrikalega hressandi í alla staði á öllum vígstöðvum. Hefði kannski verið til í meira sprell með vinum mínum þegar líða fór á árið en það er auðvelt að lagfæra það.

Þetta ár sem nú er mætt á svæðið á eftir að verða magnað, það þarf engan eldflaugasérfræðing eða sérstakann saksóknara til að sjá það. NBA úrslitin fara á fullt þegar fer að vora og 11.júní byrjar Heimsmeistarakeppni í knatttspyrnu. Og akkúrat á þessum dögum sem eru á milli þessara stóratburða verð ég væntanlega orðin pabbi ef dagatal ljósmæðra er eins stillt og mitt. Það verður því vonandi gull á öllum vígstöðvum, að Lakers vinni NBA, ég eiginst dreng með minni spúsu og að Holland verði Heimsmeistarar.

En ég kvarta þó ekki ef eitthvað af þessu þrennu gengur upp ekki.

Það að verða faðir í Vesturbænum verður skemmtilegt og þroskandi, ég er nú þegar byrjaður að drekka stoðmjólk til að undirbúa líkamann fyrir þær breytingar sem að þessu fylgir. Og að sama skapi er ég byrjaður að vakna á 70 mínutna fresti á nóttunni og fá mér að drekka og lúra svo aftur. Ég treysti mér ekki strax til að sofa úti á svölum, til þess hefur verið of kalt og ég hef ekki fundið vagn sem passar vel fyrir 78 kilóa pilt á þrítugasta aldursári.

Gamlárskvöldi og dögunum þar í kring var eytt í sumarbústað með Jóh klaninu, eða hluta þess að minnsta kosti. Hrikalega góður matur í öll mál, spil, powernap og lestur. Stresslaust með öllu og skemmtilegt að sjá um matinn með mömmu, hún hefur alltaf kvartað yfir því að ég sýndi aldrei takta í eldhúsinu í öll þau ár sem maður bjó undir sama þaki og hún og skilur því illa hvernig matarblogg geta verið undan mínum rifjum. Eftir gamlárskvöld hefur hún varla sagt annað en hversu gaman það var að elda með mér, ég væri svo klár og sýndi svo gott verkvit yfir hellunum.

Ekkert af þessu er nýtt fyrir mér.

Gleðilegt ár allir saman.