last.fm

Síðan 7.september það herrans ár 2004 hef ég notað last.fm til að fylgjast með því sem ég hlusta á. Allar tölvur sem ég hef notað síðan þá bæði heima og í vinnu, símar og iPoddar hafa samkeyrt allar upplýsingar um hlustanir þangað inn þannig að allskonar skemmtilegar upplýsingar eru þar til á skrá sem gaman er að skoða.

Bæði er gaman að skoða hlustunarmynstrið á ákveðnum tímapunktum í lífi mínu ásamt því að þetta er gott til að rifja upp lög og hljómsveitir sem ég hafði annars gleymt.

Síðan kerfið byrjaði að vakta hlustanir mínar hefur það skrá hjá sér 88,214 hlustanir.

Belle & Sebastian, mín allra allra uppáhaldssveit trónir í fyrsta sætinu yfir þær hljómsveitir sem ég hef mest hlustað á. Ekkert óvænt þar. Það lag með Belle & Sebastian sem ég hef hlustað á oftast er Wrapped up in books af hinni frábæru plötu Dear Catastrophe Waitress.

httpv://www.youtube.com/watch?v=iBU-MxydbWQ&ob=av3e

Topp 5 listinn yfir þær sveitir sem ég hef mest hlustað á lítur svona út, ef ýtt er á nafn hljómsveitar opnast það lag sem ég hef hlustað á mest með viðkomandi sveit.

1. Belle & Sebastian

2. Sigur Rós

3. Arcade Fire

4. The Magnetic Fields

5. The Polyphonic Spree

Árslistinn 2011

Prikið komið niður og majónesið orðið gult. Það er komið 2012 og því rétt að líta aðeins um öxl og fara yfir tónlistarárið 2011. Geri það með þeim hætti sem ég hef gert síðustu átta ár og því er hent í loftið árslista fyrir árið 2011.

Fyrir grúskara, listamenn og þá sem hafa hreinlega ekkert annað að gera að þá eru fyrri árslistar auðvitað enn aðgengilegir. Internetið gleymir engu.

2004 / 2005 / 2006 / 2007 / 2008 / 2009 / 2010

 

Bestu innlendu plötur ársins 2011.

5. Hljómsveitin ÉG – Ímynd fíflsins

Bakkabróðir minn Róbert Örn Hjálmtýsson á skilið allt það lof sem hann og meðreiðarsveinar hans fá. Allt síðan fyrsta plata hljómsveitarinnar ÉG hef ég verið skotinn í þessu bandi einfaldlega vegna þess að það gengur einhvern veginn allt upp og það er ekkert svona í gangi annarsstaðar. Hljómurinn er hrár og góður og textarnir, sem eru það allra besta við þessa sveit slá einhvern veginn alltaf á rétta strengi. Hljómsveitin ÉG er eitthvað sem allir eiga að athuga, það er bara þannig.

Það er engin tilviljun að platan hefur fengið fullt hús stiga hjá öllum tónlistarpennum þessa lands.

4. FM Belfast – Don´t want to sleep

Ég er ekki mikið fyrir raftónlist, er meira fyrir hið klassíska samspil bassa, trommu og gítars en það er eitthvað við FM Belfast sem ég elska. Það er þessi mikla gleði og stemmning sem að þau gefa frá sér í FM Belfast og þá sérstaklega á sviði sem að ég elska. Þessi plata er aðeins síðri en frumraunin en þau halda sig við formúluna sína og ég þarf ekkert meira.

3. 1860 – Sagan

Man það svo vel þegar ég heyrði Snæfellsnes í útvarpinu fyrst og svo stuttu seinna lagið Orðsending að austan. Ég hafði misst af kynningunni og vissi ekkert hverjir voru að flytja þessi lög en varð alveg afskaplega hrifinn. Mörgum mánuðum seinna í fimmtugs afmæli kom einn meðlimur sveitarinnar og tróð upp og ég greip þetta loksins og keypti plötunna strax daginn eftir. Þetta er frábær plata, sveitin er frábær á sviði og ég hlakka til að meira meira efni með þessari sveit.

2. Mugison – Haglél

Mugison, maður fólksins. Þarf ekkert að eyða orðum í þessa plötu. Hún er falleg, Mugison kann að semja tónlist og hann er bæði tónlistarmaður ársins og markaðsmaður ársins. Alltaf verið hrifinn af Mugison og það er engin breyting þar á.

httpv://www.youtube.com/watch?v=SgIPKcDj4vQ

1. Sóley – We Sink

Sóley á plötu ársins, þvílík plata. Það er allt gott við þessa plötu.

 

Bestu erlendu plöturnar 2010

5.  Noah and the Whale – Last Night on Earth

Bara fyrir það eitt að Tonight´s the kind of night sé á plötunni dugar til að skila sæti á topp fimm listanum. Af öllum lögum sem ég hef í mínum hirslum var þetta lagið sem ég hlustað oftast á á þessu ári. Platan er poppuð út í gegn með hrikalega ávanabindandi viðlögum og töktum sem ég get hummað og trommað í skrifborðið með. Sem er alltaf gott.

4. PJ Harvey – Let England Shake

Plata ársins hjá Uncut, MOJO, Guardian og NME fer í fjórða sætið hérna megin. Hrikalega góð plata en nokkuð þung og þannig gerð að maður þarf að vera í ákveðinni stemmningu til að geta hlustað á hana. Stemmningin og hugarfarið sem að hún þarfnast er af þeim toga að ég er ekki oft þannig stemmdur en þegar ég hef sett hana á í þessum gír hefur það verið yndislegt alveg.

PJ Harvey vann Mercury verðlaunin í ár fyrir þessa plötu og þegar tilkynnt var um sigurvegarann jókst sala plötunnar um 1,190%. sem er rugl.

3. tUnE-yArDs – who kill

Æðisleg plata. Skrýtin, grípandi en umfram allt skemmtileg. Ekki kannski allra en þeir sem ná þessu hreinlega elska þetta.

httpv://www.youtube.com/watch?v=YQ1LI-NTa2s

2. Bon iver

Svipað og með Mugison á innlenda listanum að þá er óþarfi að eyða miklum orðum í Bon Iver. Hann er búin að tröllaríða öllu svipað og Mugison sem toppaði svo allt þegar hann gerði myndband á Íslandi við lagið Holocine. Ótrúlega falleg plata.

httpv://www.youtube.com/watch?v=TWcyIpul8OE

1. Destroyer – Kaputt

Ég elska Dan Bejar en hann er einmitt forsprakki Destroyer. Þessi sveit sem hlýtur fyrsta sætið yfir plötu ársins er svo einnig í annari sveit sem oft hefur komist á árslistann hjá mér og er það hans aðalsveit. Destroyer er meira svona hliðarverkefni, og þvílíka geðveika hliðarverkefnið.

Dan Bejar er líka í New Pornographers, sveitinni sem kölluð er Kanadísk súpergrúbba sem hefur aldrei gert lélega plötu að mínum dómi.  Hann er svo líka í Swan Lake sem margir indie krútt krakkar ættu að kannast við.

Platan Kaputt er yndisleg með öllu, tímalaus snilld. Hún er hljóðblönduð þannig að maður getur illa tímasett tónlistina og rödd Dan Bejars sem er ansi sérstök fær að njóta sín þannig að maður hlustar með sperrt eyrun þegar hann hefur upp raust sína. Hugsa að Leonard Cohen komi fyrst upp í kollinn ef maður ætti að finna annan söngvara með álíka grípandi rödd þó að hún sé allt öðruvísi, bara sama stemmning einhvern veginn.

 

1860

Þetta kann ég að meta, þetta kann ég að meta bara nokkuð mikið og vel.

httpv://www.youtube.com/watch?v=hsPHvYILYF0

Og svo blússandi Arcade Fire ábreiða frá sömu sómapiltum.

httpv://www.youtube.com/watch?v=N4mb81jRHWU

Af skrímslum og mönnum

Bæði menn og vinsældarlistar eru að tapa sér yfir fyrstu plötu Of Monster and Men sem kom út nýverið. Ég ætla ekki að hoppa á þessa jákvæðnislest sem er farin að hljóma og ætla mér að segja að þetta sé eingöngu la-la miðlungsefni.

Vissulega eru þessir krakkar hæfileikaríkir, með góða söngrödd og góðir hljóðfæraleikarar. En tónlistin sjálf, sem allt snýst jú um er bara þannig að maður hefur heyrt þetta allt áður.

Ég er bara að hlusta á Edward Sharpe & The Magnetic Zeros, Fleet Foxes, Arcade Fire, Plants & Animals og fleiri góðar sveitir sem allar hafa slegið í gegn í þessari indie krútt bylgju sem krakkarnir í Of Monsters and Men hafa krukkað saman í eina heilsteypa plötu sem þau kalla sína.

Ég er ekki að saka þau um stuld eða neitt slíkt en frumlegheitin eru lítil sem engin og þetta er allt svo hrikalega líkt fyrrnefndum sveitum og fleiri að ég get ekki hlustað á þetta með góðu móti án þess að vilja hreinlega bara hlusta á hina erlendu listamenn sem sveitin sækir sínar fyrirmyndir í.

Segið mér að þetta sé ekki alveg sama tóbakið ?

httpv://www.youtube.com/watch?v=8Dw8qdmT_aY

httpv://www.youtube.com/watch?v=Qb9jY8yAxgs

The Magnetic Fields

Ef það er einhver sveit fyrir utan Belle & Sebastian og Bítlana sem á fastan sess í hjarta mínu er það hin stórkostlega vanmetna og nær óþekkta The Magnetic Fields.

Að hún sé ekki fræg skil ég ekki því lögin og þá sérstaklega textarnir eru einhver mesta listasmíð sem ég hef á ævi minni heyrt. Stephin Merrit, forsprakki sveitarinnar sem semur öll lög og alla texta er einhver mesti snillingur sem ég hleypt í mín eyru. Textarnir tala til manns á svo mörgum sviðum og geta í senn skellt manni grátandi í fósturstellingu yfir í að ætla að sigra heiminn og allt þar á milli.

Win Butler, forsprakki Arcade Fire sagði eitt sinn að Magnetic Fields séu ein stærsta ástæðan fyrir því að hann hafi farið að gera tónlist sjálfur. Hann hafi verið að vinna í skóbúð og alltaf verið að heyra lög með sveitinni í útvarpinu og hann hafi í kjölfarið hringt daglega í útvarpið og beðið um lög með Magnetic Fields til að heyra meira með sveitinni. Hér má sjá og heyra Arcade Fire taka Born on a train sem á finna á Magnetic Fields plötunni Charm of the Highway Strip.

Lögin eru ekki flókin heldur afskaplega einföld sem gerir textunum einmitt hærra undir höfði og þeir fá að njóta sín án þess að tónlistin taki of mikið frá þeim eða yfirgnæfi. Textarnir fjalla iðulega um ástina og tekur Stephin Merrit oftast kaldhæðna, bitra og sótsvarta sýn á ástina sem er svo frábært. Gott dæmi um slíka textasmíð er hið frábæra Yeah! Oh Yeah! af þrekvirkinu 69 Love Songs sem er þreföld plata með jú, mikið rétt 69 lögum um ástina.

Í laginu er par að syngja til hvors annars þar sem að konan spyr manninn sinn hvort að hann sé hættur að elska hana, hvort að hann vilji bara vera einn, hvort að hún fari í taugarnar á honum, hvort að hann hrylli við þegar hún hringir í hann og hvort að hann sé að halda framhjá.

Svarið er alltaf já ásamt fleiri spurningum af svipuðum toga sem endar með því að hann drepur hana.

Ég mælist til þess og hreinlega heimta að fólk taki smá rúnt á Youtube og hlusti á lög The Magnetic Fields. Platan 69 Love Songs ætti að vera góður inngangur að sveitinni. Sýnir fjölbreytileika hennar og snilld í einu verki þó langt sé. Platan I (þar sem að öll lögin byrja á I) og platan Get Lost ættu svo að koma strax á eftir.

Endum þessa skipun á ábreiðu/kráku/kóveri/tökulagi Peter Gabriel þar sem hann tekur eitt fallegasta lag The Magnetic Fields og gerir ótrúlega vel. Lagið heitir The Book of Love og er af hinni frábæru 69 Love Songs.

httpv://www.youtube.com/watch?v=FmnDXRJ7btE