Listi – Tækjalisti

Alveg síðan í júní 2000 þegar ég byrjaði að skrifa hingað inn hefur mikið og margt verið skrifað. Oftast um mig sjálfan (frábær.net kallast síðan í lokuðum hópum), tónlist eða tækjadót.

Þetta er eitt af þessum tækjabloggum. Þau eru mörg raftækin og hlutirnir sem ég tók úr plasti og ýti á On takkann eða hlutir þarna á netinu í þessu svokallaða skýi sem að ég byrjaði að nota á því herrans ári 2015. En hvað stendur upp úr?

Kindle lesbrettið (e-reader) frá Amazon er eflaust það tæki sem hefur gefið mér mest. Ég hef oft tekið rispur og lesið mikið en svo koma tímar þar sem ég les lítið sem ekki neitt. Eftir að Kindle mætti í fíngerðar en þó karlmannlegar hendur mínar hef ég lesið ógrynni af bókum. Ef ég ætti að nefna einhverjar bækur sem standa upp úr og þú lesandi góður hefur kannski engan áhuga mætti til dæmis nefna :

paperwhite

 

Fjarstýring er kannski ekki tæki sem ætti heima í svona upptalningu en mig varðar ekkert um það. Á venjulegum heimilum í dag eru fjölmargar fjarstýringar fyrir hin og þessi tæki sem öll tengjast í sjónvarpið. Til að spara pláss á stofuborðinu og einfalda málin (fyrir flesta, nefni engin nöfn (Kristín!)) er hér ein fjarstýring sem gerir allt og Margrét Dúna 5 og hálfs skilur hana meira að segja. Logitech Harmony er frábær all-in-one græja. Beisík!

harmony-elite-gallery1

 

Allar þessar ljósmyndir og myndbönd. Bæði gamlar partýmyndir, endalausar myndir af Margréti Dúnu og Guðrúnu Evu og svo allar myndirnar sem teknar eru á símann. Endalaust magn og endalausar minningar. Það er rugl og þvæla árið 2016 að geyma ljósmyndir á hörðum diskum, þetta á og skal vera í skýinu svo að ekki ein mynd glatist. Harðir diskar eiga það til að bila og það getur verið erfitt og virkilega dýrt að bjarga gögnum af þeim. Það eru til margar þjónustur sem leysa þetta vandamál en sú sem ég er ánægðastur með og elska bara virkilega mjög mikið eins furðulega og það hljómar er Google Photos.

Þangað hendast sjálfkrafa inn allar myndir og video sem ég tek á snjallsímann og ég skellti öllum myndum sem að ég átti í fórum mínum þangað inn líka. Þannig eru myndirnar öruggar fyrir gagnatapi ef harðir diskar bila en snilldin er auðvitað þegar að Google láta algrími sín og gagnaver skoða myndirnar mínar. Þannig búa þeir til hreyfimyndir úr myndunum mínum, setja myndir úr ferðalögum sjálfkrafa saman, lærir að þekkja fólkið á myndunum og hluti og þannig get ég auðveldlega leitað af myndum ekki bara eftir dagsetningu heldur hverjir og hvað er á myndunum.

Þannig getur leit eins og „Kristín with beer in Brussels“ skellt upp öllum myndum teknar í Brussel og þar sem Kristín ástkær eiginkonan mín kemur fyrir með bjór í hendi komið á skjáinn á einu augabragði.

 

Tónlistarleg uppeldi Rúnars Skúla

Ef þið ættuð að elta einn lagalista á Spotify að þá mæli ég sérstaklega með Tónlistarlegu uppeldi Rúnars Skúla.

Drengurinn sá vissi ekki hver Bruce Springsteen eða Valgeir Guðjónsson væru þegar við áttum tal saman við kaffivél eina á sameiginlegum vinnustað okkar og því varð að gera eitthvað í málunum. Smám saman er ég að týna gullmola inn í þennan lagalista frá hinum og þessum tímabilum.

Það vantar ýmislegt þarna inn, en það er í vinnslu. Eftir sem áður er þetta undraverður lagalisti svona þó að ég segi sjálfur frá.

Frjóvgunarafmæli

Dagatalið lýgur ekki, það er fasti. Dagatalið segir mér í dag að stutt sé til jóla og að jólasveinarnir komi fljótlega til byggða. Dagatalið segir mér að nú sé stutt í að nýtt ár gangi í garð með sínum áskorunum og tækifærum ásamt því að bæta enn einu aldursárinu við okkur öll.

Á næsta ári verð ég 35 ára, það er fínt. En nú um stundir á ég 35 ára afmæli. Þó ekki fæðingarafmæli heldur frjóvgunarafmæli. Við Jesú eigum því sameiginlegt að eiga afmæli í desember.

Um þetta leiti í eflaust miklum snjóþunga tók einn sundmaður föður míns sig til og vann vinninginn stóra. Níu mánuðum síðar eða þann 16.september það herrans ár 1980 mætti ég sjálfur í heiminn eftir að móðir mín hafði druslað okkur með tíu í útvíkkun frá Mývatnssveit til Húsavíkur og þaðan í sjúkraflugi til Reykjavíkur. Í höfuðstaðnum kom ég í heiminn og þar hef ég nær alltaf alið manninn.

Foreldrar mínir, það sómafólk bjó við Múlaveg í Mývatnssveit í húsi sem ég skil ekki að nokkur maður hafi getað búið í. Þetta er svokallað greni. Við sjáum mynd

10696442_10152505191038429_6944635532797101641_n

 

Sem betur fer fluttu foreldrar mínir í reisulegra hús rétt fyrir komu mína. Ótrúlegt hvað ræst hefur úr bræðrum mínum þrátt fyrir að hafa alist upp við vosbúð.

Afmælisbarnið ég ætlar bara að hafa það náðugt. Einhverra hluta vegna hefur það ekki komist í tísku að halda upp á frjóvgunarafmæli en mögulega verður það dottið inn og ekki litið hornauga þegar 40 ára frjóvgunarafmælið rennur í hlað.

Britpop – 20 árum síðar

Fyrir nærri tuttugu árum var Britpopið búið að ná hátindi þegar að Blur og Oasis gáfu bæði út smáskífu á einum og sama deginum. Allir fjölmiðlar gerðu mikið úr þessu stríði og gerðu þetta að keppni milli hljómsveitanna sem voru stærstar í þessum geira tónlistar. Stríðið snérist ekki bara um tónlistt heldur tengdist það beint í mænukylfu Breta þar sem stéttarskipting er mikil og miklu skiptir úr hvaða hreppi menn voru. Blur, með milli og hástéttar peyjum innanborðs sem fóru í listaskóla voru fulltrúar Lundúna og nærliggjandi bæja á meðan að Oasis voru lágstéttar drengir frá Manchester sem slógust, drukku og viðtöl sem tekin voru við þá voru gullmola verksmiðja enda var þvælan slík.

Frægt er t.d. þegar að Noel Gallagher sagði í viðtali að hann vonaði að Damon Albarn og Alex James bassaleikari Blur myndu fá eyðni og deyja. Falleg orð það.

Þó að Blur hafi unnið stríðið um Bretland náði Oasis því að slá í gegn í Bandaríkjunum, eitthvað sem mörg bönd frá Bretlandi höfðu reynt en ekkert náð í gegn enda var tónlistarhneigð Bandaríkjamanna um það sem var inni eða úti langt frá því að vera stillt á sömu bylgjulengd og Bretar eða restin af Evrópu á þessum tíma.

Núna þegar maður lítur aðeins um öxl liggja eftir margar plötur og annað gúmmelaði sem þessar sveitir og aðrar frá britpop tímanum skyldu eftir sig. Sumar eldast afskaplega vel, aðrar ekki. Margar sveitir frá þessum tíma eru með öllu gleymdar nema hjá einstaka fólki sem horfir enn til baka til þessa tíma með glampa í augunum. Það eru ekki margir að hringja í Popplandið á Rás 2 þessa dagana og biðja um lög með Powder, Shed Seven, Cast eða These Animal Men.

En það sem er kannski merkilegt er að það er engin sveit frá þessum tíma enn starfandi að gera vart við sig á topplistum eða að leggja frekari drög að heimsyfirráðum. Fáir forsprakkar sveita frá þessum tíma eru enn að gera góða tónlist og slá í gegnum hjá nýjum hópi hlustenda sem var ekki fæddur eða ekki komin til vits og ára fyrir 20 árum síðan.

Nema Damon Albarn.

Damon Albarn er eini maðurinn sem kemur upp í huga mér sem tók þátt í þessum brit pop dansi sem enn stígur dansinn, þróast og vex og heldur áfram að gera nokkuð góða tónlist. Allir hinir eru bara að gera eitthvað annað eða að lifa á stefgjöldum og forni frægð.

Svartholið

Um páskana flutti ég búferlum. Ekki bara ég heldur fjölskyldan öll. Ég, barnsmóðirin og sambýliskonan sem eru samt sama konan bara svo að það komi fram, börnin tvö og skutbíllinn. Ásamt auðvitað öllu okkar hafurtaski.

Ég hélt að sú stund að vera búinn að fara síðustu ferðina úr L37 ætlaði aldrei að koma, þetta var endalaust af dóti en þetta hafðist fyrir rest.

Að flytja í nýtt hús á nýjum stað þar sem allt er nýtt nema hverfið sem við búum í er yndislegt. Yndislegt að hafa meira pláss, yndislegt að geta haft mikið um það að segja hvernig hlutirnir eigi að vera og yndislegt umfram allt að hafa smáspennutöflu þar sem ethernet kaplarnir flæða í öll rými eins og engin sé morgundagurinn og bitar og bæti streyma um alla íbúð á ógnarhraða.

Fyrstu dagarnir á nýjum stað voru á rauðum almanaksdögum og því var engin net eða sjónvarpstengingin. Ég taldi það létt mál enda myndi snjallsíminn og spjaldtölvan bara brúa það bil með sínum öflugu nútíma þægindum sem að 4G og 3G kerfi fjarskiptafyrirtækjanna eru. Það reyndust vera mistök þar sem að ég virðist búa í einhverju svartholi þar sem að merki farsímasendanna virðast koma til að deyja.

Ef heppnin var með mér datt ég í gott Edge samband en gat líka dottið niður í þrusufínt GPRS samband. Árið 2003 sagði allt í einu halló, halló gamli vin á meðan að innréttingarnar og húsið nýja sagði mér að kreppan væri búin og bauð upp á freiðandi kampavín í háu glasi.

Fyrir utan að vera staðsettur í svartholinu sem að ekkert gott merki virðist finna lífsvilja í, óháð fjarskiptafyrirtæki hafa öll tæki heimilisins haldið mig vera staddann erlendis. Það er eitthvað sem ég næ ekki að skilja og ég er alveg ágætlega tölvuklár.

Hvort sem ég set inn myndir á netið, spjalla við félaga eða skoða eitthvað á netinu vill internetið allt halda að ég sé staddur í Riga eða í Grikklandi. Bæði Lettland og Grikkland eru eflaust fínustu lönd en þar bý ég ekki. Ég bý í 200 Kópavogi með útsýni og alla þjónustu í göngufæri.

Screenshot_2014-05-15-22-42-33

Skiptir engu hvort að ég noti farsímsamband eða hraðvirkt nútíma netsamband skal ég alltaf vera staddur á öðrum hvorum staðnum.

Hin og þessi öpp senda mér tilkynningar um hvað sé sniðugt að sjá í nágrenninu og hvar sé gott að borða. En allt þetta er erlendis, ekkert af þessum góðum ábendingum finn ég í Hamraborg eða í vesturbæ Kópavogs.

Screenshot_2014-04-29-20-22-37

Ég bý í einhverju Twilight Zone. Erindi mitt liggur enn á bæjarskrifstofu Kópavogs og því er enn ósvarað. Ef ykkur vantar ábendingar um hvað sé gaman að gera í Riga eða á Grikklandi er ég rétti maðurinn til að veita ykkur góð ráð.

Tveggja barna faðir

Þetta blogg hefur verið vanrækt mjög lengi. Það er miður þegar maður horfir til þess að bloggið hefur verið starfandi í einhverri mynd síðan í júní það herrans ár 2000 þegar að internetbólan var í hámarki. Síðan þá hafa mörg netfyrirtækin farið yfir móðuna miklu með bullandi rauð excel skjöl og yfirdráttinn í botni. Bloggsíðan gummijoh.net hefur alltaf verið í góðum rekstri og öll opinber gjöld greidd samviskusamlega.

Síðan síðast hefur margt gerst. Ber þó helst að nefna að Hertoginn, það þýska stál var seldur á einum degi og uppfært í skutbíl. Enda þarf meira pláss þegar að nýr einstaklingur bætist við í fjölskylduna. Þá er ég ekki að tala um hamstur eða páfagauk heldur nýjan einstakling, með skoðanir, kennitölu og tilfinningar.

Guðrún Eva Guðmundsdóttir fæddist 25.nóvember 2013. Þetta gekk hratt fyrir sig og barnið kom rétt áður en ég náði að smella mynd af slímtappanum þegar hann skaust út úr barnsmóður minni á mettíma. Stuttu seinna var komið barn og ég grátandi í boga yfir þessu öllu saman.

Guðrún Eva

Eins fullkomin og Margrét Dúna sem fer að detta í fjögurra ára aldurinn er og var á sínum hvítvoðungs tíma mætti segja að Guðrún Eva sé eins og BabyBorn dúkka. Hún brosir, hjalar, drekkur og sefur í engri sérstakri röð. Það er aldrei neitt vesen með svefn, aldrei neitt vesen með skapið og því mætti segja að hún hafi erft skapið mitt. Margrét Dúna er meira með skap barnsmóður minnar. Þar eru áveðnar skoðanr á öllum hlutum og ekkert verið að sætta sig við málamyndanir. Þegar Margrét Dúna og barnsmóðirin deila er það bara stál í stál og ég er þá í hlutverki sáttasemjara. Eitthvað sem segir mér að þetta verði ekki raunin með Guðrúnu Evu, en ég hræðist hvernig þetta verður þegar hún verður unglingur, þá kannski blómstar út eitthvað skap sem ég á ekki roð í. Vonum samt að hún verði bara eins og ég sem unglingur, ekkert nema ljós.

Núna í apríl dettur svo barnsmóðirin í vinnu og barnið ekki orðið fimm mánaða. Það verður því mikið álag á tveggja barna föðurnum sem smellur í feðraorlof þá og þarf að gefa pela lon og don eins og að hann laktósi sjálfur. Fyrir mann sem þolir illa að missa svefn verður það því mikil þolraun að þurfa að vakna um miðjar nætur til að hita pela og standa í þessu brasi.

Að eiga tvö börn er áskorun. Það tekur allt lengri tíma og því algjörlega ný rútína sem þarf að venja sig á, það getur tekið á þegar maður býr með manneskju með sterku þýsku geni sem skipuleggur tíma sinn í fimmtán mínutna lotum og það þarf að ná þessari rúmlega fjögurra ára í föt, greiða hár og svo koma nýjasta eintakinu í föt líka. Þegar allir eru svo tilbúnir og ekkert eftir nema að skella útidyra hurðinni í lás heyrist hljóð. Hljóð sem maður veit að rústar öllum áætlunum og hafa þarf hröð handtök. Það er þetta hljóð sem að foreldrar einir þekkja, hljóð sem segir manni að nú sé kúkur kominn upp á bak og í gegnum öll lögin af fötum.

Feðraorlofið verður áskorun. Tryggja þarf heimilisfrið, tryggja þarf áhyggjulaust og fumlaust uppeldi dætranna og tryggja þarf að nóg sé af „me-time“ svo að nýrri uppskerfu af gráum hárum sé haldið í skefjum.

MD og GE

Amma Dúna

Laugardagskvöldið 17.ágúst sofnaði amma Dúna mín svefninum langa, orðin 92 ára gömul. Það er ljúfsárt, gott að hún fékk að fara en ég sakna ömmu minnar engu að síður heil mikið. Ég skrifaði minningargrein í Morgunblaðið fyrir okkur bræður og ég læt hana fylgja hér með. Blessuð sé minning ömmu Dúnu.

 

Í okkar vinahópum þekkja flestir ömmu okkar, hana ömmu Dúnu. Bæði af því að við tölum oft um hana en þó helst vegna þess að við höfum oft mætt seint á vinafundi því að fjölskyldan hefur verið að hittast. Svo lengi sem við munum hefur ekki mátt vera frídagur án þess að fjölskyldan þurfi að hittast í kaffi, mat eða helst hvorutveggja. Engin var mætingarskyldan en alltaf mættu og mæta allir.

Það er leitun að samrýndari fjölskyldu. Systur mömmu eru okkur sem mæður og börn þeirra okkur sem systkini. Öll erum við ein órjúfanleg heild, við erum fólkið hennar ömmu Dúnu. Við erum ríkir að eiga slíkt bakland og er það ömmu Dúnu að þakka.

Amma Dúna var fyrir margt löngu tilbúin að kveðja, enda sátt og södd lífdaga. Alltaf var þó eitthvað í gangi sem hún vildi bíða eftir. Fyrst vildi hún sjá öll barnabörnin sín fermast og seinna hitta öll langömmu-börnin.

Hvort sem við vorum í heimsókn eða næturpössun hjá ömmu var alltaf tekið í spil. Amma kenndi okkur að spila og þannig eyddum við ófáum stundum saman. „Tígulkóngurinn kæri, kominn vildi ég að væri“ og „Spaði, spaði. Sprengdur úti á hlaði“ var þá eitthvað sem maður heyrði hana oft segja og við segjum í dag.

Það var alltaf fyrsti valkostur að gista hjá ömmu Dúnu og oft kepptumst við bræður um að fá að gista í Grjótaselinu, jafnvel þó að mamma og pabbi þyrftu ekki næturpössun. Þá fengum við frjálsar hendur og matseðill kvöldsins og sjónvarpsdagskrá voru hönnuð af okkur.

Hjá ömmu fengu börnin alltaf að ráða án þess þó að það færi út í öfgar. Fyrir henni voru allir jafnir og börn voru með sama atkvæðisrétt og aðrir, jafnvel meiri. Amma virtist líka vera með samning við jólasveinana því ef næturpössun var á sama tíma og þeir voru að gefa í skóinn var gjafmildi þeirra slík að góssið hefði fyllt öll okkar skópör og meira til. Amma var líka eflaust ein stöðugasta tekjulind myndbandaleiga og kvikmyndahúsa án þess þó að hafa stigið fæti þangað inn.

Amma Dúna mátti aldrei neitt aumt sjá, öll dýrin í skóginum áttu að vera vinir. Hún grét alltaf yfir Nonna og Manna því Magnús var svo vondur við þá bræður og hún var óhuggandi yfir myndinni um munaðarleysingjann Annie. Hún grét yfir þessu og öðru óréttlæti gagnvart börnum þó að hún vissi vel að þetta myndi enda vel.

Okkur leiddist aldrei að fá símtal frá ömmu þegar hún hringdi til að segja okkur að koma og sækja kleinupoka en þá hafði hún ásamt Þóru, mömmu og Ernu verið að baka. Kleinurnar hennar ömmu eru betri en allar aðrar kleinur og það sama má segja um rabarbaragrautinn, hakkabuffið, pönnukökurnar og eiginlega allt úr klassísku íslensku eldhúsi. Þetta segjum við ekki vegna tilfinningatengsla heldur sem staðreynd.

Ef við náum að kenna stelpunum okkar helminginn af þeirri gæsku, umhyggjusemi og kærleika sem amma hafði, höfum við staðið okkur vel í uppeldinu. Við gleðjumst yfir allri samverunni og yfir því að stelpurnar okkar hafi fengið að kynnast langömmu sinni.  Okkur þykir óendanlega vænt um ömmu Dúnu og munum halda minningu hennar á lofti.

Kristinn, Ólafur og Guðmundur